Velta Símans árið 2018 nam 28,5 milljörðum króna og var nánast óbreytt milli ára, en gjaldfærsla viðskiptavildar hjá Mílu, dótturfyrirtæki Símans, upp á 3 milljarða olli því að bókfærður hagnaður nánast þurrkaðist út frá fyrra ári og nam 282 milljónum, samanborið við 3,08 milljarða í fyrra, sem er 92% samdráttur.

EBITDA nam 8,75 milljörðum og jókst um 2% milli ára, en rekstrarhagnaður (EBIT) nam 1,92 milljörðum og dróst saman um 61%, vegna ofangreindrar gjaldfærslu viðskiptavildar.

Sé horft til síðasta ársfjórðungs námu tekjur félagsins 7,54 milljörðum, svo til óbreytt frá 7,5 milljarða tekjum á 4. ársfjórðungi 2017.

Gjaldfærsla viðskiptavildar Mílu kemur til vegna virðisrýrnunarprófs í lok reikningsárs, sem mat endurheimtanlegt virði Mílu 3 milljörðum lægra en eignagrunn, og var því viðskiptavild félagsins lækkuð um samsvarandi upphæð til samræmis.

Þetta leiðir til þess að 2,44 milljarða króna bókhaldslegt tap varð á 4. ársfjórðungi, samanborið við 607 milljóna króna hagnað árið áður. Undirliggjandi rekstur var hinsvegar nánast óbreyttur, enda hefði hagnaður fjórðungsins numið 554 milljónum ef ekki hefði komið til niðurfærslunnar.

Heildareignir félagsins í árslok námu 58,8 milljörðum króna og lækkuðu um lækkuðu um 3%, og eigið fé 35,2 milljörðum, og lækkaði um sama hlutfall. Eiginfjárhlutfall var því óbreytt í 60%.

Félagið greiddi 6,52 milljarða í laun í fyrra, sem er lítilsháttar lækkun frá fyrra ári, en ársverkum fækkaði um 4% og námu 699. Meðallaun námu því 777 þúsund krónum á mánuði og hækkuðu um 1% milli ára.

Arðgreiðslur námu 311 milljónum króna í fyrra, og kaup félagsins á eigin bréfum 1,24 milljörðum. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði 330 milljónir í arð árið 2019, og eigin bréf keypt fyrir 1,31 milljarð.