Í gær kom út skýrsla nefndar forsætisráðherra um ímynd Íslands, en henni var ætlað að gera úttekt á „skipan ímyndarmála Íslands í dag“ og koma með tillögur um stefnu og aðgerðir.

Formaður nefndarinnar var Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík. Á blaðamannafundi sem haldinn var í Hafnarhúsinu í tilefni af útkomu skýrslunnar, kynnti Svafa helstu niðurstöður skýrslunnar, en Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra fluttu ávörp.

Niðurstaða nefndarinnar er 85 síðna löng skýrsla þar sem ímyndarmálum Íslands eru gerð rækileg skil, meðal annars með því að kortleggja hvaða aðilar það eru, opinberir og á vegum einkaaðila, sem sinna málaflokknum og hvernig þeir tengjast.

Nefndin ráðgaðist við um 130 manna hóp Íslendinga sem ýmist hafa sérþekkingu á sviði ímyndarmála eða eiga hagsmuna að gæta gagnvart ímynd Íslands, en einnig var byggt á viðhorfskönnunum sem Capacent Gallup gerði. Auk þess var álits leitað hjá viðskiptafulltrúum íslenskra sendiráða sem starfa á erlendri grund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .