Einhverjar viðamestu breytingar í sögu íslensks verðbréfamarkaðar munu eiga sér stað í lok maí næstkomandi þegar Nasdaq verðbréfamiðstöð, systurfélag Kauphallarinnar, Nasdaq Iceland, mun taka upp nýtt verðbréfamiðstöðvakerfi og samhliða því sameinast verðbréfamiðstöð Nasdaq í Evrópu, Nasdaq CSD. Magnús Ásgeirsson sem í dag er framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hefur nú þegar tekið sæti í framkvæmdastjórn Nasdaq CSD, þó að starfsemin muni áfram fara fram hér á landi.

Á síðustu árum hefur átt sér stað töluverð umræða um vöntun á erlendum fjárfestum á bæði hluta- og skuldabréfamarkaði. Í lok janúar áttu erlendir fjárfestar um 20% af heildarmarkaðsvirði skráðra hlutabréfa en til samanburðar hefur hlutfallið verið um 35% að meðaltali í Noregi síðustu 20 ár og í Svíþjóð er það ívið hærra eða um 40%. Fyrir utan þá staðreynd að hlutfall erlendra fjárfesta hefur verið lægra hér á landi en í nágrannaríkjunum hafa þeir fjárfestar sem hingað hafa komið ekki verið ýkja virkir í viðskiptum á markaði og hafa þar af leiðandi í litlum mæli stutt við virk skoðanaskipti á markaðnum.

Eitt þeirra atriða sem staðið hefur erlendum fjárfestum og fjármálafyrirtækjum fyrir þrifum er umgjörð um uppgjör og utanumhald verðbréfa sem hingað til hefur verið óstaðlað og ekki í takt við alþjóðlegar kröfur. Þá kom einnig fram í úttektum vísitölufyrirtækjanna FTSE og MSCI á íslenska markaðnum að vankantar væru m.a. á uppgjörsferlinu. Þess má geta að á meðan íslenski markaðurinn komst inn í vísitölumengi FTSE í september síðastliðnum þá komst markaðurinn ekki inn í vísitölumengi MSCI í nóvember.

Breytingarnar nú koma í kjölfar þess að í byrjun febrúar samþykkti Alþingi innleiðingu á CSDR reglugerð Evrópusambandsins um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar sem tóku gildi árið 2014 en um er að ræða fyrstu samræmdu reglugerð sinnar tegundar í Evrópu. Fram til þessa hefur Nasdaq verðbréfamiðstöð starfað á grundvelli íslenskra laga sem sett voru árið 1997 og hafa staðið að mestu óbreytt frá þeim tíma.

Færa umgjörðina til nútímans

Magnús Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar (NVM), segir það mikið fagnaðarefni að CSDR hafi verið samþykkt enda skapi það grunn og hvata til þess að færa innviði og ferla NVM til nútímans og til samræmis við það sem gengur og gerist í flestum öðrum löndum.

„Sú stöðnun sem hefur átt sér stað grundvallast að stórum hluta af því að við höfum verið að starfa á grundvelli laga sem eru orðin meira en 20 ára gömul og endurspegla að mörgu leyti það umhverfi og tækni sem var til staðar á þeim tíma. Á þessum tíma hafa lögin lítið sem ekkert þróast hér á landi og það sama má segja um tækni og ferla í uppgjöri og utanumhaldi verðbréfa. Þetta má einnig rekja til fleiri þátta en í grunninn er það gömul löggjöf sem hefur staðið í vegi fyrir okkur.

Í millitíðinni kom vissulega hrun og svo gjaldeyrishöft í töluverðan tíma sem varð þess líklega valdandi að það var ekki mikill metnaður til að sinna þessu alþjóðlega umhverfi. Svo kom að því að höftum var aflétt en einhvern veginn varð ekki mikil breyting á hvað varðar erlenda fjárfesta. Þá kemur að því að spyrja af hverju þetta stafar en svarið snýr að mörgu leyti af því að umgjörðin er ekki nógu góð og ekki í takt við tímann,“ segir Magnús

„Að mínu mati eru kauphallarviðskiptin eða framendinn í sjálfu sér í samræmi við nútímakröfur enda hefur löggjöfin þar þróast hratt þar sem MIFID I og II hafa lagt grunninn að því hvernig kauphallir starfa og hvernig verðbréfaviðskipti eiga að fara fram. Á sama tíma hefur lítil framþróun átt sér stað hér á landi varðandi verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar. Fyrsta samræmda löggjöfin í Evrópu um verðbréfauppgjör og starfsemi verðbréfamiðstöðva, CSDR, var samþykkt í Evrópu árið 2014 og var sett með það fyrir augum að staðla verklag og gera grunninn að verðbréfaviðskiptum sterkari og skilvirkari. Innleiðing á CSDR í íslensk lög krefst þess að umhverfið hér á landi sé fært til samræmis við umgjörðina annars staðar í Evrópu.

Verðbréfauppgjörið er grunnurinn að skilvirkum verðbréfamarkaði og skilvirkni í verðbréfaviðskiptum. Erlendir aðilar gera kröfu um skilvirkni í uppgjöri og öllu utanumhaldi. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli sérstaklega fyrir alþjóðlega umhverfið þar sem óskilvirkni dregur úr áhuga á markaðnum og hefur neikvæð áhrif á seljanleika á verðbréfamarkaði.

Þetta leiðir okkur að því sem við erum að gera í dag þar sem við erum að vissu leyti að ýta úr vör breytingum þar sem CSDR veitir sterkan grunn til að byggja á og hvata fyrir okkur til að uppfæra okkar innviði og ferla til samræmis við það sem gengur og gerist í Evrópu og annars staðar í heiminum. Á sama tíma var komin þörf til þess að fara í breytingar og þetta ýtir aðeins á eftir okkur og gefur auk þess umhverfinu öllu hvata til þess að fara í breytingar. Markmiðið hjá okkur er að fullnægja þessu regluverki sem er mjög íþyngjandi og ítarlegt og uppfylla allar þær kröfur sem þar koma fram.

Við erum því að tvinna þetta saman, þ.e. þennan hvata sem kemur frá Evrópu og að við þurfum að ýta markaðnum á annan stað og koma okkur inn í nútímaumgjörðina og til samræmis við alþjóðlega umhverfið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .