Grunur leikur á að upplýsingum um fyrirhugaða ráðningu Árna Odds Þórðarsonar hafi verið lekið úr fyrirtækinu áður en hún var kynnt Kauphöll Íslands. Þetta er ástæða þess að viðskipti með bréf félagsins voru stöðvuð klukkan tvö í dag. Ekki er vitað hvenær þeim upplýsingum var lekið.

Eftir að upplýsingar um forstjóraskiptin birtust í frétt á vef DV hækkuðu bréf í félaginu mikið, eða um rúm 5%. Viðskiptin hafa numið um 300 milljónum króna.

Tilkynning um ráðninguna barst svo fjölmiðlum þegar klukkan var 25 mínútur gengin í fjögur og var opnað fyrir viðskipti með bréf félagsins í Kauphöllinni sautján mínútum síðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Marel verður kannað hvernig lekinn átti sér stað, en þarna var um að ræða innherjaupplýsingar sem gátu haft verðmyndandi áhrif.