Dómur Hæstaréttar vegna áfrýjunar Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar á gæsluvarðhaldsúrskurði yfir þeim verður væntanlega ekki birtur opinberlega, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Hæstaréttar.

Það er gert vegna beiðni um slíkt frá ákæruvaldinu.

Hreiðar Már og Magnús voru úrskurðaðir í tólf og sjö daga gæsluvarðhald síðastliðinn föstudag. Þeim úrskurði var áfrýjað til Hæstaréttar sem á að skila dómi sínum í dag eða á morgun. Þeir eru grunaðir um margvísleg brot, meðal annars skjalafals, auðgunarbrot og markaðsmisnotkun.

Hreiðar Már er fyrrum forstjóri Kaupþings og Magnús fyrrum bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg.

Á skrifstofu Hæstaréttar fengust þær upplýsingar að niðurstaða Hæstaréttar yrði að öllum líkindum ekki birt á heimasíðu réttarins líkt og vani er fyrir. Þá verður heldur ekki hægt að nálgast afrit af dómnum á skrifstofu Hæstaréttar. Ástæðan er sú að ákæruvaldið, embætti sérstaks saksóknara, hefur óskað eftir því að dómurinn verði ekki birtur þar sem hann mun innihalda upplýsingar um viðkvæma rannsóknarhagsmuni.

Það er því ekki að kröfu sakborninganna Hreiðars Más eða Magnúsar, né lögmanna þeirra, að dómurinn verður ekki birtur.