Dómari hafnaði í dag kröfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um að forstöðumaður verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf., Friðjón Þórðarson, yrði settur í gæsluvarðhald fram á föstudag.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins taldi dómari að grunur um brot væri ekki nægilega sterkur til að hægt væri  að fallast á kröfu um gæsluvarðhald.

Forstöðumanninum hefur því verið sleppt úr haldi og mun meintum vitorðsmanni hans líka vera sleppt úr gæsluvarðhaldi síðar í dag, að lokinni yfirheyrslu.

Rannsókn málsins heldur áfram, að sögn Björns Þorvaldssonar, aðstoðarsaksóknara hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

Forstöðumaðurinn er grunaður um að hafa nýtt upplýsingar, sem hann hafði vegna starfs síns, til þess að hagnast á gjaldeyrisviðskiptum. Þá er hann og meintur vitorðsmaður grunaðir um peningaþvætti til að koma gróðanum undan.