Fulltrúar G-7 þjóðanna hafa kynnt fyrstu niðurstöður rannsóknar sem Financial Stabilty Forum (FSF) vann fyrir samtökin með það markmið að komast að undirliggjandi ástæðum þess óróa sem nú gætir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, að því er kemur fram hjá Dow Jones fréttaveitunni.

Niðurstöðurnar eru meðal þess sem kom fram í yfirlýsingu sem send var út í dag.

„Við munum strax bregðast við milliniðurstöðum rannsóknarinnar með viðeigandi hætti, og bíðum lokaskýrslunnar með eftirvæntingu," segir í yfirlýsingu frá fjármála- og seðlabankastjórum G-7.

Meðal þeirra atriða sem tæpt er á í niðurstöðum FSF er mikilvægi þess að fjármálastofnanir geri hreint fyrir sínum dyrum hið fyrsta, í stað þess að bíða með afskriftir til lengri tíma á flóknum fjármálagjörningum. Að sama skapi er brýnt að lausafjár- og áhættustýring komist rétt í betra horf, en þá þurfa fjármálafyrirtæki um allan heim að vera samstíga í því að innleiða reglur Baselnefndarinnar um eiginfjárhlutföll.

„Líta þarf til hugsanlegra hagsmunaáreksta hjá matsfyrirtækjum, og auka þarf upplýsingamagn í verðmötum þeirra svo að skilningur fjárfesta á flóknum fjármálagjörningum verði betri," segir í yfirlýsingu forsvarsmanna G-7.