GTA hefur samstarf við íslenska fyrirtækið Bókun. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu fyrirtækjanna tveggja.

„GTA er ein stærsta ferðaheildsala í heiminum og selur vörur á yfir 1000 áfangastöðum. Um 21 þúsund bókana fara í gegnum GTA á degi hverjum.

Meirihluti íslenskra ferðaþjónustu fyrirtækja notar Bókun sem sitt sölu- birgða- og samningakerfi. Á Íslandi fara um 80.000 bókanir í gegnum kerfi Bókunar á mánuði. Fyrirtæki sem nota Bókun hafa gert meira en 8.000 samninga um að selja vörur hvers annars, með áhugaverðum árangri. Um þriðjungur af öllum bókunum á ferðum og afþreyingu á Íslandi, eru bókanir þar sem íslenskir ferðaþjónustuaðilar endurselja vörur annarra íslenskra aðila og nota til þess kerfi Bókunar. Þetta fyrirkomulag sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa tileinkað sér hefur víða hlotið eftirtekt, þ.m.t. hjá GTA.

GTA mun nota Bókun fyrir allar bókanir sínar til birgja á sviði ferða og afþreyingar, hvarvetna um heiminn. Það þýðir að birgjar GTA munu notast við Bókun í viðskiptum sínum við GTA og fleiri endursöluaðila. Þá mun GTA einnig halda fyrirlestra á öllum helstu áfangastöðum fyrir aðila í ferðaþjónustu um það hvernig fyrirtæki geta nýtt sér Bókun - n.t.t. til að selja vörur hvers annars til að auka sýnileika varanna, bæta vöruframboð og auka svæðisbundna sölu“ segir í tilkynningunni.

Viðskiptavinir Bókunar eru nú frá 33 löndum, en með samstarfinu við GTA verður Bókun með viðskiptavini í yfir 100 löndum á næstu mánuðum.