Breska stjórnarandstaðan og fjölmiðlar hafa farið hamförum undanfarna daga í gagnrýni sinni á hina kínversku varðmenn ólympíueldsins. Hvaða menn voru þetta eiginlega í bláu og hvítu hlaupagöllunum með dökk sólgleraugu - og af hverju var þeim leyft að hlaupa um götur London?

Þegar hlaupið var með ólympíukyndilinn um miðborg London í vikunni vakti það athygli manna að hópur bláklæddra Kínverja hljóp meðfram kyndilberanum og bægðu frá mótmælendum sem reyndu að komast of nálægt kyndlinum - sumir vildu jafnvel meina að þeir hafi beitt óþarflega mikilli hörku. Í breskum fjölmiðlum hefur Kínverjunum verið lýst sem „viðurstyggilegum", „hræðilegum", „vélrænum", „fúllyndum", „dularfullum" og „þroskaheftum ribböldum".

Á þriðjudaginn upplýsti dagblað í Hong Kong að mennirnir væru sérstakir liðsmenn í úrvalssveitum herlögreglunnar í Kína. Herlögregla kínverska Alþýðuhersins gegnir margvíslegum skyldustörfum: Frá því að vernda æðstu ráðamenn kínverska ríkisins á erlendum vettvangi yfir í það að viðhalda allsherjarreglu innanlands.

Þegar óeirðirnar hófust í Tíbet var það einmitt herlögreglan sem var send til þess að bægja niður mótmælin og koma á stöðugleika. Stuðningsmenn Tíbet hafa ásakað herlögregluna um að hún hafi skotið á mótmælendur.

Bandaríska viðskiptablaðið Wall Street Journal greinir frá því að kínversku gæslumennirnir, sem voru handvaldir af kínversku ólympíunefndinni, séu allir yfir 1,75 sentimetrar á hæð - sem telst fremur mikið á kínverskan mælikvarða - og hafi þurft að gangast undir strangt æfingaprógramm í herlögregluskólanum í Peking. Hver og einn þeirra skoraði mjög hátt í hernaði og „pólitískum prófum".

Með öðrum orðum: Þeir stóðust með glæsibrag öll próf sem lagt var fyrir þá í hugmyndafræðilegum rétttrúnaði kínverska Alþýðulýðveldisins.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .