Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að gæta verði jafnræðis milli atvinnugreina og fyrirtækja í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.

Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins.

„Því verður ekki unað ef í ljós koma tilburðir í þá átt að afgreiða vanda einnar atvinnugreinar eða einstakra fyrirtækja með öðrum hætti eða á kostnað annarra. Hér verða allir að sitja við sama borð,“ er haft eftir honum á vefnum.

Hann er sagður vísa til umræðna um að skuldir útgerðarinnar verði felldar niður og til samningaviðræðna um breytingar á framvirkum gjaldmiðlasamningum útgerðarinnar.

„Allt kapp verður að leggja á að við það uppbyggingarstarf sem í hönd fer verði þessi gætt að jafnræðis sé að fullu gætt milli atvinnugreina og fyrirtækja. Stjórnvöld gera þessar kröfur til fjármálafyritækja sbr. yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2. desember um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Sömu megin sjónarmið hljóta að gilda hjá skilanefndum föllnu bankanna þriggja. Annað er óásættanlegt“ segir Jón Steindór á vef Samtaka iðnaðarins.

Slóð vefjarins er hér .