Danska lágggjaldaflugfélagið Sterling, sem er í eigu Northern Travel Holding, er undir miklum þrýsingi frá flugmönnum félagsins sem hafa boðað verkfall næstkomandi fimmtudag, segir í frétt á vefsíðu danska viðskiptablaðsins Børsen.

Í bréfi sem Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling, sendi starfsmönnum flugfélagsins kemur fram að ef af verkfallinu verði geti það leitt til þess að starfsemi fyrirtækisins verði hætt.

?Verkfall er spurning um lífdaga fyrirtækisins. Við getum hugsanlega borið eins til tveggja daga verkfall en ekki meira en það. Hver dagur í verkfalli kostar um 15 til 20 milljónir danskra króna að undanskildum þeim skaða sem verður á ímynd fyrirtækisins. Sterling á ekki mikið umframfé þar sem flugfélagið hefur verið rekið með tapi undanfarinn ár og er fyrst nú að snúa rekstrinum við,? segir Stefan Villner, upplýsingafulltrúi Sterling, í samtali við Berlingske Tidende á laugardaginn síðastliðinn.

Flugmenn Sterling hafa sent boðun um verkfall frá næsta fimmtudegi, ef ekki nást samnningar við flugfélagið. Fyrirhugað er að þeir hitti forráðamenn flugfélagsins á morgun til að ræða um samningsatriði.

?Það er alveg ljóst að ekkert flugfélag sem er í samkeppni á þessum markaði getur staðið undir þeim kostnaði sem verkfall kostar og haldið ímynd sinni áfram á markaðinum,? segir Almar Örn í bréfinu sem hann sendi starfsmönnum flugfélagsins.

Northern Travel Holding, eigandi Sterling, hefur innkallað stækkunaráform sín þar til deila flugmanna Sterling hefur verið leyst.