Áætlað verðmæti notaðra fólksbíla sem eru til sölu í landinu er á bilinu 20 til 25 milljarðar króna.

Svo virðist sem markaður sé að opnast fyrir þessa bíla í Evrópu og hafa fulltrúar fyrirtækja, m.a. frá Þýskalandi og Danmörku, sem dreifa bílum um alla Evrópu, verið hér undanfarna daga að kynna sér markaðinn með útflutning í huga.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að ekki sé þó grundvöllur fyrir slíkum útflutningi nema til þess komi að ríkið endurgreiði að hluta vörugjöld sem greidd voru af bílunum þegar þeir voru fluttir inn til landsins.

Hann segir að fjármálaráðuneytið verði að komast að niðurstöðu í þessu máli á allra næstu dögum því óvíst sé hve lengi þessi gluggi haldist opinn, sem tengist að sjálfsögðu óvenjulegri stöðu krónunnar.

Málið er til skoðunar núna í fjármálaráðuneytinu. Um er að ræða beiðni um hlutfallslega endurgreiðslu af gjöldum miðað við aldur og afskriftir hvers bíls.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .