Einar Kristinn Guðfinnsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Er því ætlað að stuðla að minni afskiptum ríkisvaldsins af framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða. Einnig er þar verið að bregðast við athugasemdum Samkeppniseftirlitsins um að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva.

Ólafur Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, segir með ólíkindum hvernig staðið er að málinu. "Þetta er gríðarlegt áfall fyrir okkur og grafalvarleg staða sem skapast verði þetta frumvarp að lögum. Þetta gæti þýtt endalok samkeppni á þessum markaði. Það er ljóst að frumvarpið er pantað af Mjólkursamsölunni enda er það samið af Logos sem er lögfræðiskrifstofa Mjólkursamsölunnar. Það er því greinilegt að það er eitt fyrirtæki hér á landi sem getur pantað lagafrumvörp og látið lögfræðing sinn semja þau. Það er með ólíkindum að ráðherra skuli leggja þetta frumvarp fram á Alþingi án þess að kalla Mjólku að þessu borði þar sem þetta snýr að grundvallarþáttum í okkar rekstrarumhverfi, sem er verðlagning á mjólkurafurðum. Ég átti svo sem von á þessu í vor og gekk þá á fund forsætisráðherra. Ég varaði við þessu og sendi honum bréf þar að lútandi."

Nánar er fjallað um frumvarpið í Viðskiptablaðinu.