*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 21. febrúar 2020 14:11

Frakkar kaupa Marorku

Hið franska Gaztransport & Technigaz kaupir Marorku af stjórnendum félagsins. Tvö ár eru síðan þeir komu Marorku til bjargar.

Ritstjórn
Gunnar Stefánsson, Darri Gunnarsson, Haraldur Orri Björnsson lykilstjórnendur Marorku.
Haraldur Guðjónsson

Franska félagið Gaztransport & Technigaz (GTT) hefur keypt allt hlutafé í Marorkua af stjórnendum félagsins. Tvö ár eru síðan danska móðurfélag Marorku fór í þrot og lykilstarfsmenn félagsins keyptu íslenska félagið út úr þrotabúinu.

Kaupin á Marorku eru sögð liður í stefnu GTT um að auka þjónustu við skipaiðnaðinn á sviði stafrænna lausna, hvað varðar orkustjórnun og leiðir til að minnka umhverfisáhrif greinarinnar. Félagið er sagt leiðandi á heimsvísu í tækni fyrir skipaiðnað.

Sjá einnig: Lykilstarfsmenn kaupa Marorku

Marorka hannar og selur orkustjórnunarkerfi og búnað í skip, en kerfi félagsins hafa verið sett upp í yfir 600 skipum. Seljendur, sem eru stjórnendur Marorku, munu starfa áfram hjá félaginu. Félagið hagnaðist um 640 milljónir króna árið 2018. Grunnrekstur félagsins batnaði á árinu sem og að eftirgjöf skulda tengt endurreisn þess bætti afkomuna. 

Darri Gunnarsson, framkvæmdastjóri Marorku, segir: „Það er ánægjulegt að verða hluti af GTT Group. Með því mun markaðsstaða fyrirtækisins styrkjast og við getum betur mætt þörfum viðskiptavina. Það eru gríðarleg tækifæri til að minnka olíunotkun skipa og gera rekstur þeirra hagkvæmari. Viðskiptavinir Marorku ná mjög góðum árangri á því sviði. Við deilum þeirri sýn með GTT að starfræn þjónusta við skipaiðnaðinn geti skilað miklum rekstrarlegum og umhverfislegum ávinningi.“

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi seljenda í viðskiptunum. LOGOS var ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum