Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að þingið sé með breytingum sínum klárlega að hafa áhrif á Icesave-samningana. „En það þýðir ekki að við séum að hafna samningunum sem slíkum," sagði hann í umræðum á Alþingi rétt í þessu.

Þriðja og síðasta umræða um frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina hófst á Alþingi í morgun.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í morgun að það sem skipti meginmáli væri „hvort hér væri að verða til efniviður í farsæla lausn þessa vandræðamáls."

Og hann bætti við: „Það hljótum við öll að vona að hér hafi tekist þannig til að það hafi verið búið eins vel um lendingu í þessu erfiða máli hvað okkar hagsmuni snertir eins og erfiðar aðstæður Íslands buðu."

Eins og fram hefur komið á vef Viðskiptablaðsins gerði meirihluti fjárlaganefndar Alþingis tvær meginbreytingar við Icesave-frumvarpið milli annarrar og þriðju umræðu og var nefndarálitinu dreift á Alþingi í gær.

Meðal annars er því bætt við frumvarpið að það sé skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem Alþingi hefur sett við ábyrgðina og að þau fallist á þá.

Þá er því bætt við að verði lánsfjárhæðin ekki að fullu greidd árið 2024 vegna hinna efnahagslegu viðmiðana „skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta," eins og segir í breytingartillögum meirihlutans.

Að þeim standa þingmenn allra flokka í fjárlaganefnd nema Framsóknarflokks.