Guðbjörg Edda Eggertsdóttir hefur verið skipuð í stöðu aðstoðarforstjóra Actavis, í kjölfar forstjóraskipta í síðustu viku.

Valur Ragnarsson, næstráðandi Guðbjargar Eddu á sölusviði Actavis, tekur sæti hennar sem framkvæmdastjóri Sölu til þriðja aðila.

Actavis hefur einnig gert breytingar hjá dótturfélagi sínu í Bandaríkjunum. Þar mun Doug Boothe taka við stöðu framkvæmdastjóra félagsins, en hann var áður framkvæmdastjóri markaðssviðs Actavis í Bandaríkjunum.   Þetta kemur fram í tilkynningu frá Actavis en einnig kemur fram að Valur tekur nú sæti í framkvæmdastjórn Actavis, en Guðbjörg Edda og Doug sátu þegar í framkvæmdastjórninni.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir hóf störf hjá Actavis eftir samruna við lyfjafyrirtækið Delta. Hún kom til Delta árið 1983 og var síðast aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri útflutnings- og þróunarsviðs félagsins.

Hjá Actavis var Guðbjörg Edda framkvæmdastjóri Sölu til þriðja aðila hjá frá 2002. Hún er með kandídatspróf í lyfjafræði og hefur starfað í lyfjageiranum síðan árið 1976.

Valur Ragnarsson gekk til liðs við Medis, Sölu til þriðja aðila hjá Actavis, árið 2001 og varð framkvæmdastjóri Medis árið 2003. Hann var áður markaðsstjóri Lundbeck á Íslandi og síðar markaðsstjóri Aventis. Valur er lyfjafræðingur og hefur starfað við fagið síðan 1988.

Doug Boothe hefur starfað á markaðssviði Actavis í Bandaríkjunum frá árinu 2005, síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Hann gekk til liðs við Actavis í kjölfar kaupa félagsins á lyfjafyrirtækinu Alpharma. Doug er með BS gráðu í verkfræði frá Princeton háskóla og MBA gráðu frá Wharton School of Business.

„Bestu leiðtogarnir byggja upp teymi sem eru sveigjanleg og halda áfram eins og áður þótt þeir hverfi sjálfir á braut. Róbert Wessman er engum líkur, en það kemur líka maður í hans stað,“ segir Guðgbjör Edda, nýráðinn aðstoðarforstjóri í tilkynningunni.

„Actavis hélt sínu striki eftir breytingar á eignarhaldi í fyrra og Actavis heldur sínu striki eftir breytingar á yfirstjórn á ár. Hér starfar samhentur hópur sem mun áfram skila á markað hágæða samheitalyfjum á sanngjörnu verði, hratt og vel, í meira en 60 löndum um allan heim."