Guðbjörg Edda Eggertsdóttir verður forstjóri Actavis á Íslandi í kjölfar skipulagsbreytinga hjá félaginu, sem þegar hafa tekið gildi.

Hún situr sem fyrr í framkvæmdastjórn Actavis Group og mun jafnframt stýra margvíslegum verkefnum  á heimsvísu, m.a. í Japan, Kína, á Indlandi og víðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Actavis en í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var greint frá því að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins er nú á lokastigum. Þannig munu flestir aðilar í framkvæmdastjórn Actavis Group færa starfstöð sína til Sviss á næstu misserum þó höfuðstöðvar félagsins verði áfram hér á landi.   Guðbjörg Edda hefur starfað hjá fyrirtækinu og forverum þess í 30 ár. Hún var aðstoðarforstjóri Delta frá 1999, framkvæmdastjóri á markaðssviði Actavis Group frá 2002 og aðstoðarforstjóri samstæðunnar frá 2008. Guðbjörg Edda er lyfjafræðingur að mennt.