Eins og fram hefur komið hafa stjórnir Mjólkursamsölunnar - MS - og Mjólkurbús Flóamanna - MBF - lagt til að félögin verði sameinuð. Undirbúningur gengur samkvæmt áætlun og má gera ráð fyrir að sameining geti átt sér stað um mánaðamótin apríl, maí næstkomandi verði hún samþykkt á deildarfundum og aðalfundum félaganna. Stjórnir MS og MBF hafa ráðið Guðbrand Sigurðsson sem sérstakan ráðgjafa í því sameiningarferli sem framundan er.

Guðbrandur mun starfa með stjórnendum og starfsmönnum félaganna að því að skipuleggja og skilgreina starfsemi hins nýja sameinaða félags.

Stjórnir beggja félaga hafa óskað eftir því við Guðbrand að hann gefi kost á sér sem forstjóri hins nýja félags og munu jafnramt gera þá tillögu til nýrrar stjórnar að hann verði ráðinn forstjóri þess gangi áætlanir um sameiningu eftir.

Guðbrandur Sigurðsson er matvælafræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í viðskiptum frá Edinborgarháskóla. Hann hefur frá því hann lauk námi starfað innan sjávarútvegs. Meðal annars stýrði hann viðskipta- og vöruþróun hjá Íslenskum sjávarafurðum hf árin 1990 til 1996. Árið 1996 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa hf og gegndi því starfi til vors 2004 þegar félagið var selt nýjum eigendum. Þá var hann einnig framkvæmdastjóri Brims, sjávarútvegssviðs Eimskipafélags Íslands frá 2003 til 2004. Síðastliðið ár hefur Guðbrandur sinnt ráðgjafa- og fjárfestingar-verkefnum.