Athafnamaður nokkur í New York í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn matsfyrirtæki. Tölvukerfi fyrirtækisins neitaði að viðurkenna nafn mannsins og sagði hann því ekki eiga sér neina viðskiptasögu. Það hafði svo þau áhrif að lánshæfi mannsins er talsvert lélegra en það ætti að vera.

Ástæða þessa er sú að maðurinn er af rússnesku bergi borinn og heitir God Gazarov, sem upp á íslensku og með einbeittum misskilningi gæti útleggst sem Guð Gazarov. Þótt ætla mætti að nafn almættisins hlytu að vera einhvers virði þá komst hugbúnaður matsfyrirtækisins að annarri niðurstöðu og taldi hann því ekki trúverðugan gaur. Maðurinn er 26 ára og nefndur í höfuðið á afa sínum sem rekur skartgripaverslun í Brooklyn.

Hinn rússneski God ber starfsmönnum matsfyrirtækisins ekki vel söguna og segir í samtali við bandaríska dagblaðið The New York Post að þar hafi verið mælt með því að hann breytti um nafn. „Þetta er mjög pirrandi,“ segir hann í samtali við blaðið og leggur þar áherslu á að hann hafi unnið baki brotnu til að ná þeim áfanga í lífinu að teljast góður og geng lántakandi. Það hafi greinilega ekki gengið og standi nafnið í vegi fyrir því að hann geti keypt sér bíl.