Eigandi Ísfélags Vestmannaeyja, ÍV fjárfestingafélag, greiddi rétt rúma 3,2 milljarða króna í arð til eigandans Guðbjargar M. Matthíasdóttur.

Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2017. Félagið skilaði um 630 milljóna króna hagnaði og eigið fé þess nam um 13,6 milljörðum króna. Helsta eign ÍV er ríflega 80 prósenta hlutur í útgerðarfélaginu Ísfélagi Vestmannaeyja.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að Ísfélag Vestmannaeyja hefði skilað 4,2 milljóna dala hagnaði, jafnvirði 440 milljóna króna, á síðasta ári. Það reyndist nokkur samdráttur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 16,7 milljónum.