Guðbrandur Benediktsson
Guðbrandur Benediktsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðbrandur Benediktsson hefur verið valinn úr hópi 23 umsækjenda um stöðu safnstjóra til að stýra nýju safni Reykjavíkurborgar, sem mun sameina Minjasafn Reykjavíkur, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Viðey og Víkina Sjóminjasafn. Safnið verður eitt stærsta safn landsins.

Guðbrandur útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2003 með meistaragráðu í sagnfræði og frá Gautaborgarháskóla árið 2004 með meistaragráðu í safnafræði. Hann hefur starfað sem deildarstjóri miðlunar hjá Minjasafni Reykjavíkur frá árinu 2005 og verið staðgengill borgarminjavarðar við stjórnun safnsins frá sama tíma. Guðbrandur hefur leitt fjölmörg verkefni hjá Minjasafni Reykjavíkur á sviði sýninga, viðburða, fræðslu, markaðsmála og rekstrar.

Guðbrandur hóf starfsferil sinn á vettvangi safna hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur þar sem hann starfaði á árunum 1998 -2005 og var jafnframt staðgengill safnstjóra um árabil. Síðastliðin 10 ár hefur Guðbrandur jafnframt komið að uppbyggingu námsbrauta og starfað sem stundakennari við HÍ og Endurmenntun HÍ þar sem hann hefur sinnt kennslu í ferðamálafræði, safnafræði, sagnfræði og hagnýtri menningarmiðlun. Hann gegnir jafnframt fjölmörgum trúnaðarstörfum á sviði safna og menningartengdrar ferðaþjónustu og er t.a.m. stjórnarmaður í Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og situr sem fulltrúi þess í Safnaráði og á sæti í stjórn í Samtökum um sögutengda ferðaþjónustu.

Niðurstaða ráðningarnefndar og ráðgjafa Capacent, sem sá um ráðningarferilinn, var að Guðbrandur uppfylli afar vel þær kröfur sem settar voru fram í auglýsingu um staðgóða og víðtæka þekkingu á sviði safnsins, leiðtogahæfni, frumkvæði, skilning á markaðsstarfi og hæfni til að leiða kynningu á nýju safni.  Jafnframt var haft samráð við menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur sem fagnar ráðningunni.