Guðbrandur Einarsson.
Guðbrandur Einarsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Guðbrandur Einarsson var um helgina kjörinn formaður Landssambands íslenskra verzlunarmanna (LÍV). Tveir voru í framboði, Guðbrandur og Helga Ingólfsdóttir, stjórnarmaður í VR. Guðbrandur tekur við af Úlfhildi Rögnvaldsdóttur, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu.

Guðbrandur fékk 82% greiddra atkvæða þegar kosið var um formannssætið um heligna en Helga 18%.

Þá var einn listi í framboði til stjórnar og varastjórnar LÍV. Kosin voru Ólafía B. Rafnsdóttir, Páll Örn Líndal, Kristín M. Björnsdóttir, Benóný Valur Jakobsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir og Gils Einarsson.

Fram kemur í tilkynningu frá LÍV að Guðbrandur, sem er formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, er 55 ára og hefur hann setið í stjórn sambandsins frá árinu 1999. Hann tók sæti í miðstjórn ASÍ í fyrra. Þá hefur hann gegnt fjölda trúnaðarstarfs fyrir verkalýðshreyfinguna í gegnum tíðina og situr hann m.a. í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, stjórn Miðstöðvar símenntunar Suðurnesja og Samvinnu, starfendurhæfingar á Suðurnesjum. Guðbrandur sat jafnframt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á árunum 2002-2012 fyrir Samfylkinguna.