Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja mun leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi í komandi þingkosningum. Þetta kom fram í myndbandi á Instagram og Facebook síðum Viðreisnar í morgun.

Guðbrandur – betur þekktur sem Bubbi – hefur um árabil verið bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og er nú forseti bæjarstjórnar. Hann var í rúm 20 ár formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, sat í stjórn Landssambands íslenskra Verslunarmanna og var formaður sambandsins í sex ár. Þá hefur hann einnig tekið að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir ASÍ og sat meðal annars í miðstjórn sambandsins í 14 ár.

Hann hefur einnig starfað sem verslunarstjóri Kaskó í Keflavík og framkvæmdastjóri Nýs miðils, sem rak útvarpsstöðina Brosið og vikublaðið Suðurnesjafréttir. Uppstillingarnefnd Viðreisnar í Suðurkjördæmi er að sögn enn að störfum, og verður heildarlisti kynntur síðar.

Áður hefur verið tilkynnt að Guðmundur Gunnarsson fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar muni leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi, en oddvitar í öðrum kjördæmum liggja ekki fyrir.