„Ég held það sé hægt að finna miklu hæfara fólk í þessi mál. Mér finnst hún hafa staðið sig mjög illa og annað hvort þarf hún bara að taka sig verulega á og fara að vinna þessi mál af skynsemi í staðinn fyrir að segja að það sé fjármálaráðuneytið sem sé að stoppa hana í hennar málum.“

Þetta segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, í samtali við Vísi , en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun sagði Guðfinna í stöðuuppfærslu á Facebook í nótt að hún skammaðist sín fyrir að vera í sama flokki og Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.

Í stöðuuppfærslunni sagði Guðfinna að Eygló tæki ekki ráðgjöf, en hún segist hafa boðist til að aðstoða Eygló í hennar málum sem hafi ekki viljað það.

Guðfinna fer nú fram á að Eygló segi af sér embætti taki hún sig ekki taki og vinni húsnæðismálin af skynsemi, samkvæmt frétt Vísis. Frumvörpin hennar séu illa unnin. „Nú ef hún getur það ekki þá tel ég rétt að það sé fundinn einhver annar einstaklingur til þess að gegna þessu embætti,“ segir hún og bætir við að margir séu betur til þess fallnir að gegna embættinu, en vill þó ekki nefna nein nöfn.