„Þessum degi, 5. apríl 1992, gleymi ég aldrei, ég vaknaði heima hjá mér á Norð­urvöllum 50 í Keflavík og mitt fyrsta verk var að setja Johnny B. Goode í flutningi Elvisar Presley á fóninn. Ég var að tryllast af spenningi,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV, þegar hann rifjar upp fermingardaginn sinn.

Eftir athöfnina fór Guðfinnur í mynda­töku hjá Heimi Stígssyni ljósmyndara og ekki minnkaði spenningurinn þegar þangað var komið: „Ég hafði tekið eftir að um fermingar stillti Heimir ljósmyndari út í glugga myndum af tveimur fermingarbörnum, einni af stúlku og annarri af pilti. Þetta var við Hafnargötuna, aðalverslunargötuna í Keflavík, þannig að ég ,,bað“ hann kinnroðalaust og meira í boðhætti að stilla mér út árið eftir. Sem hann gerði svo ekki, melurinn á honum og guð blessi minn­ingu hans.“

En allt á sínar skuggahliðar og Guðfinnur sér eftir ýmsu tengt þessum degi og þá sérstak­lega eigin hégóma: ,,Mér fannst þessi ferming­armyndataka svo mikið mál, ég var svo hégóm­legur að ég hélt að fermingarmynd af mér yrði inni á hverju heimili í fjölskyldunni. Svo má ekki gleyma metnaðinum að komast út í glugga hjá Heimi ljósmyndara. Þetta varð til þess að ég vildi ekki fara í tannréttingar eins og til stóð. Það dróst svo óhóflega og ég var því með spangir á tönnum í háskólanum og mátti þakka fyrir að losna við þær rétt áður en ég gifti mig. Það skal að endingu tekið fram að ekki einu sinni for­eldrar mínir stækkuðu af mér fermingarmynd og settu í ramma.“"

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.