Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Suðvesturkjördæmi, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu á Alþingi við næstu þingkosningar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðfríði Lilju en hún hefur setið á þingi frá 2009. Hún var um skeið þingflokksformaður VG og formaður félags- og tryggingamálanefndar og er nú formaður umhverfis- og samgöngunefndar þingsins.

„Það eru forréttindi að starfa á Alþingi í umboði þjóðarinnar og fá þar tækifæri til að vinna að framgangi mikilvægra mála. Ég hef í þingstörfum mínum reynt eftir megni að hafa í heiðri þau gildi og loforð sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð gaf kjósendum fyrir síðustu Alþingiskosningar,“ segir Guðfríður Lilja í tilkynningunni.

„Við gerðum okkur mörg hver vonir um nýja og breytta tíma en því er ekki að leyna að þar hefur margt valdið vonbrigðum. Vonandi bera stjórnmálaflokkar, ríkisstjórn og Alþingi gæfu til þess í framtíðinni að hafna einstefnumenningu hrunsins og fagna þess í stað fjölbreyttum sjónarmiðum. Ýmislegt hefur áunnist þrátt fyrir erfiðleika og ég er stolt af því að hafa tekið þátt í því sem til framfara horfir. Miklu er um vert fyrir litla þjóð að muna eftir öllu því sem sameinar okkur en ekki sundrar og það er óskandi að þeir lærdómar sem dregnir verða af þessu umbrotaskeiði verði til góðs fyrir framtíðina. Ég tók ákvörðun um að fara í stjórnmál til að berjast fyrir betra samfélagi og virðingu fyrir náttúru Íslands og vonast áfram til að geta látið gott af mér leiða með öðrum hætti. Ég þakka stuðningsmönnum víðs vegar að hjartanlega fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt á þessari vegferð og óska samstarfsfólki alls góðs þótt leiðir skilji.”