Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að þeir skattar sem boðaðar séu á fjármálakerfið vegna skuldaniðurfellingartillagna ríkisstjórnarinnar séu mikið högg á starfandi fjármálafyrirtæki. Eins og fram kom um helgina hyggst ríkisstjórnin fjármagna 80 milljarða beina skuldaniðurfellingu með því að hækka bankaskatt.

Guðjón Rúnarsson segir, í samtali við Fréttablaðið , jákvætt að tillögurnar séu komnar fram enda hafi verið beðið lengi eftir þeim. Enn eigi samt eftir að fá nánari útskýringar á útfærslu einstakra þátta þeirra.

„Boðaðar skattahækkanir á fjármálakerfið í tillögunum eru vissulega mikið högg á starfandi fjármálafyrirtæki sem þær beinast að. En það á eftir að sjá hvaða áhrif þær hafa á viðskiptamenn þeirra og eignahluti ríkisins í þeim fyrirtækjum," segir Guðjón, þegar Fréttablaðið spyr hann út í málið.

„Það þarf að halda því til haga að starfandi fjármálafyrirtæki hafa greitt um 120 milljarða króna í opinber gjöld frá árinu 2009, auk þess sem bankakerfið hefur gengið miklu lengra en aðrar ríkisreknar stofnanir í fyrri skuldaaðgerðum, svo sem 110 prósenta leiðinni,“ segir Guðjón.