Guðjón Hauksson hefur verið skipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Ákvörðunin sem tekin er af Kristján Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra tekur gildi 1. janúar 2017, en hún byggir á mati hæfnisnefndar sem mat hann hæfastan úr hópi sex umsækjanda.

„Guðjón lauk BS gráðu í hjúkrun frá Háskóla Íslands árið 2006, árið 2009 lauk hann meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og árið 2011 útskrifaðist hann með meistaragráðu frá Boston University School of Public Health á sviði rannsókna tengdum heilbrigðisþjónustu,“ segir í frétt Velferðarráðuneytisins.

„Guðjón hefur frá árinu 2013 starfað sem deildarstjóri við Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Einnig hefur hann starfað sem sérfræðiráðgjafi hjá Lyfjagreiðslunefnd, gegnt stöðu sérfræðings í velferðarráðuneytinu, starfað sem verkefnastjóri á Landspítala og þar starfaði hann einnig sem hjúkrunarfræðingur á árunum 2006 – 2008.

Árin 2009 – 2011 var hann meðrannsakandi hjá Dr. Jim Burgess, heilsuhagfræðingi.“