*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 2. júlí 2015 15:41

Guðlast ekki lengur refsivert

Frumvarp Pírata um að afnema refsingu við Guðlasti hefur verið samþykkt á Alþingi.

Ritstjórn
Kirkja.
Haraldur Guðjónsson

Frá og með deginum í dag er Guðlast ekki lengur refsivert á Íslandi og er því fyllilega löglegt hér á landi að gera grín að trúarbrögðum.

Píratar lögðu fram frumvarp um brottfall 125. greinar almennra hegningarlaga og var það samþykkt á Alþingi rétt í þessu. Segir í tilkynningu frá Pírötum að þetta sé mikill gleðidagur fyrir bæði húmorista og alla vini tjáningarfrelsins.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti í gær yfir óánægju sinni með frumvarpið. Sagði hann meðal annars:

„Mér finnst nú þetta mál harla ómerkilegt og varla ástæða til að flytja þetta og þetta er partur af afsiðun þjóðarinnar.“

Frumvarp Pírata var lagt fram í kjölfar mannskæðrar árásar á ritstjórn tímaritsins Charlie Hebdo í París í vor, en útgáfan hefur gert stólpagrín að Múhamed Spámanni. Alþingi Íslendinga hefur nú komið þeim mikilvægu skilaboðum á framfæri að frelsið verði ekki beygt fyrir mannskæðum árásum.

Stikkorð: Kirkja lög Guð