Guðlaug Björk Karlsdóttir mun taka við starfi sjóðstjóra hjá Júpíter rekstrarfélagi þann 15. febrúar næstkomandi. Guðlaug hefur starfað á fjármálamarkaði við eigna- og sjóðastýringu frá árinu 2002. Hún starfaði hjá Kaupþingi hf. sem sjóðstjóri á árunum 2002 til 2008 þar sem hún stýrði meðal annars hlutabréfasjóðum og peningamarkaðssjóðum á erlendum mörkuðum og fagfjárfestasjóði. Árið 2008 hóf Guðlaug störf hjá Auði Capital hf. og tók þátt í uppbyggingu eignastýringar Auðar Capital, bæði sem sérfræðingur í eignastýringu og sjóðstjóri.

Guðlaug er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Guðlaug mun taka við stýringu verðbréfasjóða af Styrmi Guðmundssyni.

Í kjölfarið tekur Styrmir við stýringu fagfjárfestasjóða í rekstri félagsins, LEV-GB og LEV-EQ. Styrmir hefur starfað sem sjóðstjóri hjá Júpíter frá árinu 2010. Þar áður var hann sjóðstjóri vogunarsjóðsins TF2. Styrmir var starfsmaður og síðar forstöðumaður skuldabréfa- og afleiðumiðlunar Íslandsbanka, og síðar Glitnis, 2003-2007 og forstöðumaður skuldabréfa- og afleiðumiðlunar Straums fjárfestingarbanka 2007-2009. Styrmir er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum, auk þess að hafa lokið gráðu í markaðshagfræði frá CBS í Kaupmannahöfn.