Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr utanríkisráðherra, segir að menn verði að hafa hugfast að forsendan fyrir velmegun Íslendinga sé að við erum með fríverslun við aðrar þjóðir, að við höfum aðgang að öðrum mörkuðum og að við höfum opin markað hér heima, aðspurður um áherslur sínar í fríverslunarmálum.

„Núna er ákveðin gerjun hvað varðar fríverslun. Það er mikilvægt að fylgjast með því og nýta þau tækifæri sem þar bjóðast. Við erum náttúrulega í EFTA sem eru fríverslunarsamtök og það er æskilegast að samningarnir séu gerðir á þeim vettvangi.

En við erum ekki inn í tollabandalagi, höfum við frelsi til þess að semja við þann sem við viljum. Ísland hefur nýtt sér það, varðandi Kína, Færeyjar og Grænland,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Viðskiptablaðið.

„Auðvitað litist mér vel á það“

Aðspurður um möguleikann á fríverslunarsamningi við Bandaríkin, segir Guðlaugur: „Auðvitað litist mér vel á það. Bandaríkjamenn hafa fram til þess lagt alla áherslu á viðskiptalotur innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það hefur ekki gengið eftir mjög lengi. Þeir hafa verið með sína eigin stóru samninga. Til dæmis NAFTA,  þar sem þeir hafa samið við Kyrrahafsríkin með TPP og hafa haft í undirbúningi, en gengur hægt, TTIP við Evrópusambandið. EFTA ríkin áttu að vera með í því.

Þetta er nokkuð sem við þurfum að vera vakandi yfir, það mun vonandi eitthvað gerast í þessum málum. Í hvaða átt það verður eða hvað gerist er ekki nákvæmlega vitað , “ segir Guðlaugur Þór jafnframt.

Að lokum minnist nýi utanríkisráðherrann á nýja skýrslu sem að EFTA gerði að hans frumkvæði. „Að mínu frumkvæði tók EFTA saman skýrslu um hvaða afleiðingar EFTA samningarnir hefðu á viðskipti milli ríkjanna. Þeir hafa gífurlega mikil áhrif og þetta er nokkuð sem við verðum að vera meðvituð um. Ef við viljum hafa lífskjör eins og best gerist í heiminum - þá verðum við að hafa aðgang að öðrum mörkuðum og hafa okkar markaði opna,“ segir hann að lokum.