„Við erum komin með mjög flókið regluverk og því eiga eftirlitsstofnanir erfitt með að sinna hlutverki sínu. Við þurfum því skýrari leikreglur svo við lendum ekki í sömu stöðu og fyrir hrun,“ að sögn Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur fagnaði þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans sem lögð var fram á Alþingi í dag. Á meðal flutningsmanna tillögunnar voru þeir Skúli Helgason Samfylkingu og Björn Valur Gíslason VG. Þingmenn Hreyfingarinnar koma jafnframt að tillögunni.

„Við ættum að læra af reynslunni en höfum ekki gert það. Ég tel og hef af því miklar áhyggjur, að við höfum tekið upp erlendar leikreglur gagnrýnislítið. Það er grunnurinn að icesave-deilunni,“ sagði hann og benti á að kerfið væri orðið of flókið og þungt í vöfum.

Guðlaugur lagði sömuleiðis ríka áherslu á mikilvægi þess að þingmenn komi sér saman um að setja reglur um sölu ríkisfyrirtækja og rifjaði upp að verulega hafi tekið á sig þegar hann reyndi að fá upplýsingar um björgun Byrs og SpKef og sölu á þeim til Íslandsbanka og Landsbankans.

„Það var ótrúleg þrautaganga að fá upplýsingar um málið.“ sagði hann.