Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ætlar að gefa kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta tilkynnti hann á blaðamannfundi í Valhöll í hádeginu í dag.

Hann mun etja kappi við Bjarna Benediktsson um embættið á landsfundi flokksins sem fer fram næstu helgi, en hann er sá fyrsti frá því í mars 2018.

Guðlaugur hefur setið á Alþingi frá árinu 2003 og gegnt ýmsum ráðherraembættum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 2007-2008 og heilbrigðisráðherra á árunum 2008-2009. Þá var hann utanríkisráðherra 2017-2019 og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra 2020-2021. Hann tók við sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í fyrra.

Bjarni sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi í hádeginu að hann ætli að hætta í stjórnmálum ef hann tapar formannskjörinu næstu helgi.

„Ég ætla ekkert að vera að draga fjöður yfir það. Ef að mínum tíma sem formanni lýkur í þessu kjöri þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Það er ekkert flóknara en það. Mér finnst það líka bara eðlilegt, ég myndi alveg geta sætt mig við það.“