Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksin og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, fagnar því að Landsbankinn hafi ákveðið að fresta hönnunarsamkeppni um nýjar höfuðstöðvar við Austurhöfn. Vill hann sjá aðra starfsemi en banka á lóðinni, en þetta kemur fram á vef RÚV .

Landsbankinn ætlaði að halda smakeppnina í sumar, en Guðlaugur hefur harðlega gagnrýnt áform bankans um höfuðstöðvar við hlið Hörpu. Telur hann frestunina skynsamlega, en hann er ósáttur með staðsetninguna. Hann vill sjá aðra starfsemi í miðborginni.

„Harpan hefur stækkað hana gríðarlega mikið en á móti Hörpu er önnur stofnun, Seðlabankinn, sem hefur svo sannarlega ekki gert það. Það að setja annan banka hinum megin við Hörpu tel ég ekki vera gott fyrir miðborgina og ég tel að við ættum að nota núna tækifærið og reyna að skipuleggja þennan reit þannig að hann styðji miðborgina og þannig ferðaþjónustuna í landinu öllu,“ segir Guðlaugur.

„Ég held að það væri hins vegar skynsamlegt að halda hluthafafund og fara yfir málið en það eru auðvitað þeirra sem biðja um hlutahafafund að ákveða það".