Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Zhang Qingli, varaforseta kínverska ráðgjafaþingsins, sem er staddur hér á landi.

Ráðherra ræddi samskipti ríkjanna við Zhang, þ.m.t. verslun og viðskipti, væntanlega formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, hugmyndir um beint flug milli landanna og fleira. Einnig var rætt um málefni Norður-Kóreu og áætlun Kínverja um belti og braut (e. Belt and Road Initiative). Áætlunin er stundum nefnd hin nýja Silkileið og nær til flestra sviða samgangna í heiminum.

Þá minntist Zhang á frammistöðu íslenska knattspyrnulandsliðsins á HM í Rússlandi og sagði að aðdáunarvert hefði verið að fylgjast með samstöðu og samheldni Íslendinga, krafti liðsins og áræðni.

Utanríkisráðherra þakkaði góð orð og notaði svo tækifærið til að benda á að Ísland myndi líklega deila sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna með Kínverjum næsta árið. Hann kvaðst hlakka til samstarfsins en notaði um leið tækifærið til að brydda upp á ástandi mannréttindamála í Kína. „Ég fagna því að fá tækifæri til að ræða við kínverska áhrifamenn ýmis sameiginleg áhugamál, hvernig hagnýta megi fríverslunarsamning ríkjanna frá 2013 með sem áhrifaríkustum hætti og hvernig stuðla megi að enn betri samskiptum. Ég tel einnig mikilvægt að geta rætt hreinskilnislega við þá um mannréttindi í heiminum, þar með talið í Kína,“ sagði Guðlaugur Þór um fundinn.