Ríkissjóður gæti þurft að leggja bönkunum til aukið fjármagn til að gera þeim kleift að standa af sér það þunga högg sem gengislánadómur Hæstaréttar frá í gær felur í sér, að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur sagði á Alþingi í dag þar sem gengislánadómur Hæstaréttar er til umræðu að stóra áhyggjuefnið sé að engir fyrirvarar um hugsanlega niðurstöðu á borð við þá sem fólst í dómnum við skiptingu eigna á milli gömlu og nýju bankanna.

„Við vitum ekki hvaða afleiðingar þetta mun hafa,“ sagði Guðlaugur og vitnaði máli sínu til stuðnings til þess að eftirlitsstofnanir hafi í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar árið 2010, sem leiddi til þess að Alþingi samþykki lög um viðmið vaxtaútreiknings, óttast að byrðarnar á banka gætu orðið þungar. Það hafi sömuleiðis komið fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar, að hans sögn. Guðlaugur á sæti í nefndinni.