Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrv. heilbrigðisráðherra, gefur kost á sér í 2. sæti í væntanlegu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Guðlaugs Þórs í kvöld.

„Ég bið um stuðning ykkar til að leiða lista okkar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna í komandi þingkosningum. Ég hef ákveðið að sækjast eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík,“ skrifar Guðlaugur Þór á síðu sína.

Guðlaugur Þór var í öðru sæti listans eftir prófkjör í byrjun árs 2009 og leiddi þannig lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann sóttist þá eftir 1. sæti á lista flokksins en beið ósigur fyrir Illuga Gunnarssyni. Hann leiddi líka lista Sjálfstæðisflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu í kosningunum vorið 2007 eftir að hafa sigrað Björn Bjarnason í prófkjöri haustið 2006.

„Í mínu pólitíska starfi hef ég ávallt lagt áherslu á að bæta hag heimila, styrkja atvinnulífið og hafa frelsi einstaklingsins að leiðarljósi. Á þessu kjörtímabili hef ég unnið eftir þeirri forskrift og lagt sérstaka áherslu á að veita ríkisstjórninni og stofnunum ríkisins aðhald,“ skrifa Guðlaugur Þór á vegginn sinn í kvöld.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um það hvaða sæti Guðlaugur Þór myndi sækjast eftir í komandi prófkjöri. Þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrv. borgarstjóri, og Illugi Gunnarsson, sem nú er þingflokksformaður flokksins, hafa bæði lýst því yfir að þau sækist eftir forystusæti á lista flokksins í Reykjavík.