*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 13. október 2014 13:57

Guðlaugur Þór: Samstarfið hefur gengið vel

Stjórnarsamstarfið við Framsóknarflokkinn hefur sætt nokkurri gagnrýni innan Sjálfstæðisflokksins að undanförnu.

Ritstjórn

Stjórnarsamstarfið við Framsóknarflokkinn hefur sætt nokkurri gagnrýni innan Sjálfstæðisflokksins og nýlega sendu ungir sjálfstæðismenn frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýndu þær málamiðlanir sem gerðar hafa verið í stjórnarsamstarfinu og meintan skort á sambærilegum vilja til málamiðlana af hálfu framsóknarmanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, kveðst ekki vera sammála þessu. „Ég get aðeins tjáð mig um samstarfið við þingmenn Framsóknarflokksins og það hefur gengið mjög vel. Við höfum til dæmis verið mjög samstíga í fjárlaganefnd og unnið vel saman. Ég þori að fullyrða að í minni tíð á þingi hefur vinnan í fjárlaganefnd ekki gengið svona vel og sést það til dæmis á því hversu ítarlega við fórum í gegnum fjárlagafrumvarpið. Þannig á það líka að vera. Það er Alþingi sem setur lög og það er framkvæmdarvaldsins að framfylgja þeim.“

„Hvað varðar stjórnarsamstarfið almennt þá verða menn að hafa í huga að slíkt samstarf kallar alltaf á málamiðlanir og þær geta farið í taugarnar á grasrótinni. Við á þingi þurfum á aðhaldi frá henni að halda og þess vegna fagna ég allri gagnrýni frá ungum sjálfstæðismönnum. Þeir eru að vinna þá vinnu sem þeir eiga að vinna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.