Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sæti á í efnahags- og viðskiptabnefnd Alþingis, vill að nefndin fái sem fyrst á sinn fund lögmennina Sigurvin Ólafsson og Lúðvík Bergvinsson, fyrrv. þingmann Samfylkingarinnar, vegna skrifa þeirra um innheimtu ólögmætra gengislána. Fram kemur í bréfi sem Guðlaugur skrifar til Helga Hjörvars, formanns nefndarinnar, að hann vilji sömuleiðis fá til fundar við nefndina fulltrúa Samtaka lánþega, Hagsmunasamtaka heimilanna, Fjármálaeftirlitsins og fulltrúa fjármálafyrirtækja.

Lögmennirnir sögðu í aðsendri grein sem birt var á Vísi á þriðjudag að viðskiptabankarnir hafi með gengistryggðum lánum verið að lagfæra gjaldeyrisstöðu sína gagnvart Seðlabankanum, enda hafi þeir haft takmarkaðan aðgang að erlendum gjaldeyri allt frá vordögum ársins 2006.

Þeir skrifuðu:

„Þetta var bönkunum erfitt þar sem skuldbindingar þeirra voru fyrst og fremst í erlendum myntum og þeim því mikilvægt að geta á móti sýnt fram á eignir í erlendum myntum. Virðast bankarnir þá hafa brugðið á það ráð að dulbúa lánveitingar sínar innanlands sem lán í erlendum myntum, þó að engar slíkar myntir færu milli aðila við viðskiptin, heldur eingöngu íslenskar krónur. Samningsformin sem bankarnir útbjuggu, og tilvísanir þeirra til erlendra mynta og mynteininga, gerðu bönkunum hins vegar kleift að skrá lánin sem eignir í erlendum myntum í bækur sínar, vegna reglna Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð. Þessi ólögmætu lán áttu því án efa sinn þátt í því að halda lífi í bönkunum lengur en eðlilegt hefði verið, eða allt fram á haustið 2008, sem olli því að fallið varð þeim mun brattara. Þyngsta byrðin vegna þessarar háttsemi bankanna féll auðvitað á lántakendur þegar krónan féll, enda fólu lánin í sér að öll gjaldeyrisáhættan var sett á herðar þeirra, en megintilgangur bannsins við slíkum lánveitingum var einmitt að koma í veg fyrir það.“