Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag að stórum hluta kröfum Guðmundar Andra Skúlasonar á hendur Borgarahreyfingunni, en Guðmundur Andri var á sínum tíma verkefnastjóri flokksins. Guðmundi var vikið úr starfi eftir að deilur spruttu um fjármál Borgarahreyfingarinnar og greiðslur frá flokknum til þriðju aðila. Taldi Guðmundur að uppsögnin hafi verið ólögleg og að hann ætti heimtingu á launagreiðslum frá Borgarahreyfingunni fyrir mánuðina júlí, ágúst og september 2011 auk orlofs og annarra aukagreiðslna, samtals að fjárhæð 1,7 milljónir króna.

Borgarahreyfingin mótmælti þessu og sagði á móti að greiðsla, sem Guðmundur hefði látið renna frá Borgarahreyfingunni til Samtaka lánþega, vegna kynningarferðar til Brussel hafi verið umfram heimildir. Í grunninn féllst héraðsdómur að mestu á rök Borgarahreyfingarinnar, en taldi þó að Guðmundur ætti rétt á rúmum 82.000 króna greiðslu frá Borgarahreyfingunni. Vegna þess að hann hafi án heimildar greitt tæpar 1,6 milljónir úr sjóðum Borgarahreyfingarinnar var fallist á að skuldajafna áðurnefndar 82.000 krónur. Þá var Guðmundi gert að greiða 400.000 króna málskostnað Borgarahreyfingarinnar. Guðmundur sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.