Guðmundur Arnar Guðmundsson, forstöðumaður markaðssviðs Wow air, hefur sagt upp störfum hjá félaginu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Guðmundur Arnar tilkynnt um uppsögn sína en mun vinna uppsagnarfrest.

Guðmundur Arnar var ráðinn sem framkvæmdastjóri markaðssviðs í janúar í fyrra, um hálfu ári áður en félagið flaug sitt fyrsta flug. Hann var áður vörumerkjastjóri hjá Icelandair og þar á undan markaðsstjóri félagsins í Bretlandi. Þar áður starfaði hann við markaðsmál hjá 365 miðlum.

„Það má í raun segja að Wow air hafi nú slitið barnaskónum og hefur því hlutverk markaðsstjóra tekið breytingum,“ segir Guðmundur Arnar í tölvupósti til Viðskiptablaðsins. Hann mun starfa með fyrirtækinu út sumarið og snúa sér í framhaldinu að öðrum verkefnum.

„Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að byggja upp vörumerki frá grunni. Það hefur verið áskorun og skemmtilegt að taka þátt í uppbyggingu Wow air. Á mínum ferli hefur vörumerkjastjórnun, upplifanir og markaðssetning á netinu átt hug minn allan en það hefur reynt mikið á alla þessa þætti hjá Wow air. Það þekkja allir Íslendingar Wow air í dag en það hefur ekki síður gengið vel að koma vörumerkinu á framfæri erlendis. Af því er ég afar stoltur.“

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í lok febrúar sl. voru gerðar umtalsverðar skipulagsbreytingar hjá Wow air þegar Inga Birna Ragnarsdóttir var ráðinn aðstoðarforstjóri félagsins og um leið framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Guðmundur Arnar var þá gerður að forstöðumanni markaðssviðs.

Guðmundur er hagfræðingur frá Acadia University í Kanada og er jafnframt með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann hefur ritað fjölda greina um viðskipti og markaðsmál í tímarit og blöð á Íslandi og er núverandi formaður Ímark, félags markaðsfólks á Íslandi. Hann hefur einnig gefið út bók sem fjallar um markaðssetningu á netinu.