Stjórn Vátryggingafélags Íslands hefur fallist á ósk Guðmundar Arnar Gunnarssonar um að láta af störfum sem forstjóri félagsins. Jafnframt mun hann láta af störfum sem forstjóri Líftryggingafélags Íslands. Ákvörðun Guðmundar er tekin í framhaldi af úttekt Fjármálaeftirlitsins á starfsemi og viðskiptaháttum VÍS í tíð eldri stjórna frá árinu 2008. Gengið hefur verið frá tímabundinni ráðningu Friðriks Bragasonar núverandi framkvæmdastjóra vátryggingasviðs VÍS í starf forstjóra félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS. Guðmundur óskaði eftir því að koma eftirfarandi á framfæri: „Gagnrýni Fjármálaeftirlitsins á störf mín í forstjórastóli félaganna kemur mér á óvart og veldur því vonbrigðum. Með ákvörðun minni um að víkja til hliðar er ég ekki að fallast á aðfinnslur FME heldur freista þess að standa sem fyrr vörð um hagsmuni VÍS og Líftryggingafélags Íslands. Ég þakka stjórn félagsins, samstarfsfólki mínu, viðskiptavinum félagsins og samstarfsaðilum ánægjulegt samstarf og óska félögunum alls hins besta í framtíðinni."

Ennfremur segir í tilkynningu:

„Vát ryggingafélag Íslands stendur styrkum fjárhagslegum fótum. Heildareignir félagsins um síðustu áramót voru um 35 milljarðar króna og eigið fé ríflega ellefu milljarðar króna. Stjórn félagsins vill koma á framfæri þakklæti til Guðmundar Arnar fyrir fagmennsku í störfum sínum og ánægjulega samvinnu frá því stjórnin tók til starfa í desember á síðasta ári. Fylgja honum bestu óskir um velfarnað í viðfangsefnum sínum.“

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er stutt síðan að niðurstaða úttektar FME lá fyrir og því hefur málið ekki átt sér langan aðdraganda.

Guðmundur Örn Gunnarsson vildi ekki tjá sig frekar um málið á þessari stundu þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann.