Guðmundur Arnar Guðmundsson nýr formaður ÍMARK
Guðmundur Arnar Guðmundsson nýr formaður ÍMARK
Ný stjórn hefur tekið til starfa hjá ÍMARK, samtökum íslensks markaðsfólks. Guðmundur Arnar Guðmundsson, vörumerkjastjóri Icelandair, var kjörinn formaður félagsins á aðalfundi þess fyrir skemmstu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍMARK.

„Guðmundur hefur mikla reynslu af markaðsmálum á Íslandi sem og erlendis, en hann hefur einnig gefið út bók sem snýr að markaðssetningu á netinu. Fráfarandi formaður er Gunnar B. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs Ölgerðarinnar.

Nokkrar breytingar hafa orðið á stjórninni. Fjórir af sjö stjórnarmönnum hættu og fjórir komu í þeirra stað. Nýir stjórnarmenn eru Friðrik Larsen hjá Háskólanum í Reykjavík, Gísli S. Brynjólfsson frá Hvíta húsinu, Guðrún Einarsdóttir hjá Nova og Kristján Geir Gunnarsson frá Nóa Síríusi. Þau sem áfram sitja í stjórn eru Elísabet Austmann hjá Marel og Gunnar TH. Sigurðsson hjá Já upplýsingaveitum. Ninja Ómarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri ÍMARK,“ segir í tilkynningunni.

Að mati Guðmundar eru spennandi tímar framundan hjá íslensku markaðsfólki.

„Undanfarin misseri hefur auglýsingamarkaðurinn verið að taka við sér, en til vitnis um það þá hafa ekki verið fleiri sjónvarpsauglýsingar í framleiðslu hjá kvikmyndafyrirtækjunum í nokkur ár, eða síðan árið 2007. Ég á von á að stóru fyrirtækin fari af stað af krafti með haustinu í markaðssetningu. Það er ljóst að mörg fyrirtæki eru í harðri samkeppni og hyggja á sókn á næstunni. Svo er það jákvætt fyrir starf ÍMARK  að eftirsóttir erlendir fyrirlesarar hafa sýnt því mikinn áhuga að koma til Íslands næsta vetur til að flytja erindi og kynna sér íslenska markaðinn. Það eru örar breytingar í markaðsmálunum þessa dagana og Internetið er sífellt að bjóða upp á fleiri möguleika til markaðssetningar, sem gerir störf markaðsfólks enn meira krefjandi", segir Guðmundur.