Þekking hefur ráðið Guðmund Arnar Þórðarson og tekur hann við nýju starfi sviðsstjóra rekstrarsviðs, en það er liður í nýju skipulagi hjá fyrirtækinu þar sem þjónustu við viðskiptavini er skipt upp í þrjú svið, þjónustu, rekstur og kerfi.

Guðmundur Arnar hefur víðtæka reynslu af upplýsingatækni, en hann starfaði áður hjá Reiknistofu bankanna, þar sem hann var vörustjóri fyrir hýsingu og rekstur. Áður hefur hann starfað fyrir Nýherja, Teris og Hugvit.

Guðmundur er með PMD gráðu frá Háskólanum í Reykjavík sem hann fékk árið 2014, og MBA gráðu frá Háskóla Íslands frá árinu 2016.

Í hinu nýja hlutverki mun hann „taka á rekstri umhverfa viðskiptavina. Jóhann Á. Helgason sem áður gegndi stöðu þjónustustjóra mun taka við sviðsstjórastarfi þjónustusviðs og sér um vettvangsþjónustu og þjónustuver. Ásmundur Agnarsson mun taka við kerfissviði sem sér um rekstur sértækra vél- og hugbúnaðarkerfa.

Munu þeir ásamt Stefáni Jóhannessyni framkvæmdastjóra, Bjarna Áskelssyni fjármálastjóra, Jóhanni Mássyni sviðsstjóra sölu- og markaðssviðs, Oddi Hafsteinssyni upplýsingaöryggisstjóra og Tryggva R. Jónssyni tæknistjóra sitja í framkvæmdastjórn Þekkingar,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.