„Ég ætla á þessu stigi ekki að tjá mig um einstök efnisatriði eða um það sem talið er hafa farið miður á undanförnum árum. Það er auðvitað búið og gert,“ segir Guðmundur Bjarnason. Hann var ráðinn forstjóri Íbúðalánasjóðs árið 1998 og stýrði sjóðnum fram á mitt ár 2010. Hann var áður umhverfis- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Rannsóknarnefnd Alþingis er gagnrýnin á starfsemi Íbúðalánasjóðs í skýrslu sinni á þeim tíma sem Guðmundur stýrði sjóðnum. Því til viðbótar sagði Kirstín Flygenring að upphaf forstjóratíðar hans hafi verið óheppilegt enda hann verið ráðherra í fimm mánuði eftir að hann var ráðinn forstjóri. Skýrsluhöfundar gagnrýna m.a. útlánastefnu sjóðsins og telja tap Íbúðalánasjóðs nema 167 milljörðum króna. Við bætist uppgreiðsluáhætta upp á 100 milljarða króna.

Guðmundur segir í samtali við vb.is skýrsluna stóra og viðamikla og hafi hann ekki fengið ráðrúm til að lesa hana.

„Ég er að fletta þessu á netinu og líta á helstu niðurstöður. Ég ætla ekkert að tjá mig um skýrsluna fyrr en ég hef skoðað hana betur. Þetta er það stórt mál,“ sagði Guðmundur síðdegis í dag.

„Ég vil fá að átta mig á því hvað það er þarna sem ég vil, tel ástæðu á eða þörf að svara. Aðalatriðið finnst mér að þetta er mikil vinna. Þarna er mjög margt sem er sögulegt og fræðilegt og gagnast vonandi stjórnvöldum við að fara yfir húsnæðisstefnuna og færa hana til betri vegar og laga það sem hefur farið aflaga ef það er hægt. Aðallega á að horfa til framtíðar og nýta þessa vinnu í því skyni.“