Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem Guðmundur Kristjánsson forstjóri BH Granda á meirihluta í, hefur óskað eftir því að stjórn HB Granda taki breytingartillögu til meðferðar á aðalfundi félagsins sem fer fram næstkomandi föstudag.

Breytingartillagan felur í sér breytingu á samþykktum í tengslum við skipan tilnefningarnefndar. Leggur ÚR til að breytingar á samþykktum félagsins er varða skipun tilnefningarnefndar verði frestað um eitt ár eða til næsta aðalfundar.

Þá leggur ÚR til að stjórn félagsins leggi fram skýrslu til hluthafa um starfsemi tilnefningarnefnda og reynslu annarra hlutafélaga af starfsemi slíkra nefnda. Skýrslan verði svo birt hluthöfum fyrir næsta aðalfund.

Í greinargerð með tillögu ÚR segir: „Síðastliðin misseri hafa allmörg skráð hlutafélög skipað tilnefningarnefndir til tveggja til þriggja ára. Í sumum tilfellum hafa störf slíkra nefnda valdið ágreiningi. Hefur af þeim sökum verið efnt til málþinga og funda um starfsemi slíkra nefnda, hlutverk þeirra og gagnsemi.

Með hliðsjón af framangreindu telur Útgerðarfélag Reykjavíkur mikilvægt að stjórn HB Granda afli skýrslu um reynslu félaga af skipan og starfsemi slíkra nefnda, með áherslu á reynslu þeirra fyrirtækja sem slíkar nefndir hafa verið starfandi hvað lengst.“