Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brim hefur eignast tæplega 53% hluta í félaginu eftir kaup á öllu nýútgefnu hlutafé í félaginu fyrir 6,5 milljarða króna, til viðbótar við kaup á um 10% eignarhluta Fisk Seafood í síðasta mánuði.

Guðmundur kaupir hlutina í gegnum félag sitt Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem áður hét Brim, en það félag sem nú ber það nafn  hét áður HB Grandi. Er um að ræða 133.751.606 hluti sem keyptir eru á 33,0 krónur, sem samsvarar um 6.485 milljónum íslenskra króna.

Gengi bréfa Brim þegar þetta er skrifað er skráð nokkuð hærra í kauphöllinni eða 38,25 krónur, og hefur það lækkað um 1,16% það sem af er degi í einungis 35 milljóna króna viðskiptum sem birtar hafa verið í Keldunni.

Hlutafjáraukningin nú var ákveðin á hluthafafundi þann 15. ágúst, síðastliðinn, en þegar sagt var frá kaupum ÚR á um 10% hlut Fisk Seafood í Brim þann 9. september síðastliðinn kom fram að stefnt yrði að með kaupunum myndi ÚR ekki fara yfir helmingshlut í Brim, sem skráð er í kauphöllina.

Þegar Guðmundur keypti um þriðjungshlut í félaginu sem þá hét HB Grandi af Kristjáni Loftsyni í Hval hf, og tengdum félögum fyrir um 22 milljarða króna í apríl 2018, og Viðskiptablaðið greindi fyrst frá , myndaðist yfirtökuskylda félags Guðmundar í útgerðarfélaginu en langflestir hluthafar ákváðu að selja ekki sín bréf þá. Síðan þá hefur hann smátt og smátt aukið hlut sinn.

Þann 22. ágúst sagði Viðskiptablaðið frá því að Fisk Seafood, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hefði keypt fyrir milljarð í Brim, sem kom til viðbótar við kaup félagsins á öllum hlutum lífeyrissjóðsins Gildis í félaginu þann 19. ágúst, í kjölfar ákvörðunar Gildis um að styðja ekki kaup Brims á sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur.

Samkvæmt tilkynningunni í kauphöllinni nú nemur eignarhlutur ÚR í Brim utan kaupanna á bréfum Fisk Seafood, 42,71%, en þegar hefðbundnum fyrirvörum um kaupin á þessum bréfum hefur verið aflétt mun ÚR eiga 52,76% í félaginu.

Fleiri fréttir um málefni HB Granda og Brim: