Guðmundur Franklín Jónsson hefur tilkynnt að hann bjóði sig fram í embætti forseta Íslands. Guðmundur Frankín er fyrrum formaður Hægri Grænna en í dag stýrir hann rekstri Hotel & Café Klippen í Danmörku. Hann er yfirlýstur aðdáandi Ólafs Ragnars Grímssonar, fráfarandi forseta, og var áberandi í samfélagsumræðunni í kjölfar bankahrunsins.

Tilkynning Guðmundar hljóðar svo í heild:

„Eftir því sem ég hef elst og þroskast, því betur geri ég mér grein fyrir hvað ég er heppinn að vera Íslendingur og þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa fæðst og alist upp í þessu fallega landi okkar. Í ljósi þessa, ætla ég að bjóða fram krafta mína og hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti til forseta Íslands með þá einlægu von í hjarta, að geta þjónað fólkinu í landinu af auðmýkt og heiðarleika“.