Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrum formaður Hægri grænna, gefur kost á sér í 4.-6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Fyrrum formaður Hægri Grænna

Guðmundur stóð fyrir framboði Hægri grænna í síðustu Alþingiskosningum, en hann var formaður þeirra samtaka milli áranna 2010 til 2013.. Einnig stóð hann í forsetaframboði á þessu ári, en náði ekki að safna tilskyldum fjölda meðmælenda.

Í tilkynningu segist hann talsmaður atvinnulífsins, lágra skatta og umhverfisverndar og vill hann sérstaklega leggja áherslu á ferðaþjónustuna - sem hann telur glíma við vaxtarverki.

Hótelsstjóri og verðbréfamiðlari

Guðmundur Franklín hefur starfað lengi starfað erlendis og setið í stjórnum margra félaga og fyrirtæka. Síðan 2013 hefur hann starfað sem hótelsstjóri á Hotel Klippen á Gudhjem á Borgundarhólmi í Danmörku. Hann var hótelsjóri á Bellagio Hotel í Prag í Tékklandi 2002-2009 og stundakennari hjá University of New York í Prag, 2005-2006.

Árin 1993-2002 var hann framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs og fjárvörslusviðs hjá Burnham Securities, verðbréfamiðlari hjá Oppenheimer & Co 1991-1993 og frá 1989 til 1991 starfaði hann hjá Bersec International.

Guðmundur er með stúdentspróf frá FÁ, BSc gráðu í viðskipta & hagfræði frá Johnson og Wales University, Providence, Rhode Island í Bandaríkjunum. Hann er löggiltur verðbréfamiðlari, og er með meistarnám í alþjóðastjórnmálum og hagfræði við Charles Unversity í Prag í Tékklandi sem hann tók árin 2005-2008.