Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, segir áfengisfrumvarp Vilhjálms Bjarnasonar vera of íhaldssamt fyrir sinn smekk. „Já, allavega frá mínum bæjardyrum séð," segir hann. „Ég væri til dæmis til í að leyfa áfengisauglýsingar undir ákveðnum formerkjum," segir hann jafnframt.

„Ég skil sjónarmið FA , að þeir [áfengisframleiðendur og heildsalar áfengis innsk. blm.] fái ekki að kynna sína vöru. Þá er smásalinn kominn með svolítið mikil völd yfir heildsalanum. Það sem er mikilvægt í mínum huga er að ég tel frjálsræði í þessum efnum alls ekki vera andstæðu lýðheilsu. Ég held að það sé vel hægt að frelsisvæða söluna og samt vera með skynsamlega forvarnar-, áfengis- og lýðheilsustefnu hvað þetta varðar."

Segir umfjöllun Viðskiptablaðsins haldna annmörkum

Hann segir umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið hafa verið villandi. Ástæðan sé sú að þrátt fyrir að hún lýsi afstöðu þingmanna til þess hvort  þeir myndu greiða atkvæði með áfengisfrumvarpinu í óbreyttri mynd á þeim tíma sem þeir voru spurðir þá sé ekki vikið að því hvers vegna afstaða þingmannanna sé með þeim hætti sem hún er.

„Við höfum þurft að svara fyrir þetta, vegna þess að við erum frjálslyndur flokkur," segir Guðmundur. Engin tilraun sé hinsvegar gerð til þess að útskýra afstöðu þingmanna nánar í umfjölluninni. „Frumvarpið er ekki fullkomið," segir hann.

„Þetta kemur hallt niður á okkur vegna þess að við erum frjálslyndur flokkur og frjálslyndið í þessu máli birtist í því að við erum ekkert stuðningsmenn ríkisrekstrar í verslun. Það kemur ekki fram í þessu og það er grundvallaratriði. Við birtumst í þessu eins og við viljum ríkisrekstur á áfengisverslun." Betur hefði farið á því að mati Guðmundar að leggja meiri áherslu á að kynna ástæður þess að einstaka þingmenn vildu ekki styðja frumvarpið í óbreyttri mynd.

Vilja ekki ÁTVR

„En við erum öll sammála um að ríkið þurfi ekki að reka þessar verslanir og erum ekki talsmenn ríkisrekstrar í verslun. Eins og segir í stefnu okkar þá hefur ríkið afmarkað og mikilvæg hlutverk í samfélaginu og rekstur áfengisverslana er í rauninni ekkert þess á meðal. En svo eru ólík sjónarmið í okkar röðum um það hvernig söluumhverfið eigi að líta út. Sumir vilja ekki fá þetta í matvöruverslanir og vilja frekar sérverslanir með áfengi. Þannig að það eru mismunandi áherslur hvað það varðar. Heilt yfir, kannski með einhverjum undantekningum sem mér er ekki kunnugt um, þá erum við á því að ríkið þurfi ekki að reka þessar verslanir," segir Guðmundur.

Hann segir að þó að hann telji frumvarpið gallað myndi hann líkast til styðja það. „Ef ég er spurður á þessari stundu hvort ég myndi styðja þetta þá myndi ég segja já, en samt myndi ég gjarnan vilja sníða af ýmsa galla frá mínum sjónarhóli. Ef mér er stillt upp við vegg á þennan hátt þá myndi ég segja já,“ segir Guðmundur Steingrímsson að lokum.

Aths. ritstjóra: Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um afstöðu þingmanna til áfengisfrumvarpsins var aðeins leitað eftir svörum við því hvort þeir hyggðust styðja frumvarpið í núverandi mynd eða ekki. Ekki var leitað svara við því hvaða ástæður lægju að baki þessari afstöðu einstaka þingmanna. Markmið umfjöllunarinnar var að reyna að meta hverjar líkurnar væru á því að frumvarpið fengi brautargengi í þinginu. Umfjöllunin var því ekki villandi því í henni var þeim spurningum svarað sem leitað var svara við.